miðvikudagur, apríl 06, 2005

Rottan Raggi

Sæl vertu kindin. Það er aldeilis mikið um að vera í heilabúinu mínu þessa dagana. Ég held að það sé einhver rotta þarna uppi að selflytja þessar helstu stöðvar í heilanum á billjón á tímann. Þegar mér á að vera kalt, þá svitna ég. Þegar ég á að vera áhyggjufull, þá hlæ ég og skemmti mér. Þegar ég á að vera sæl, þá verð ég þreytt. Þegar ég heyri einhverja skemmtilega tónlist, þá finnst mér ég þurfa að slökkva á henni. Já. Svona eru sumir dagar. Sum misserin. Hlægileg. Ég er samt eilítið smeyk við þetta. T.d. þá er ég alltaf að ímynda mér að ég detti niður af svölunum sem eru gangurinn að íbúðinni minni. Meira svona að ég fljúgi fram af svölunum. Veit ekki af hverju. Vona að heilinn minn haldi ekki að ég sé að spá í þetta í alvörunni. En ég held samt að rottan sé eitthvað að drepast. Sem betur fer. Og þó. Síðast þegar rotta drapst í kringum mig, þá var hún föst undir gólfinu á skrifstofunni minni. Gaus því upp hinn mesta nárottuungafýla sem var eigi gómsæt. Vona að það verði ekki fýla af mér á næstunni. Enda er sitthvað skemmtilegt á prjónum Kristjönu á næstunni.
Í kvöld ætla ég að kanna hvernig tónar Herman Düne fara mér. Þeir eru víst með þeim áhugaverðustu sem ætla að heimsækja morkna bæinn þennan mánuðinn. Það vill enginn koma hingað. Svo leiðinlegt. T.d. má nefna að í höfn kaupmanna ætla Low, Cat Power, Rufus Wainwright, Le Tigre, Stereo Total að spila fyrir lukkunar pamfílana á Sjállandinu. En enginn vill heimsækja okkur. Svo vont, svo sársaukafullt. Svo vilja líka allir bara spila í Kaupmannahöfn í miðri viku. Enginn vill spila um helgar. Því þá kemst ég kannski. Og margir vilja spila á miðvikudögum. Því þá er ómögulegt fyrir mig að komast. Ég kenni á miðvikudögum og föstudögum. Ansans. En ég óska þess að mér vegni vel í kvöld og komi ekki heim með hálfan bjór á lærinu og illa farna sál.

Kristjana

0 Comments:

Skrifa ummæli

<< Home