laugardagur, janúar 22, 2005

Sammarinn eltir mann...

Ég varð alveg hlessa þegar Sindri Már mætti skyndilega til Árósa á fimmtudagsmorgun. Greyið drengurinn missti af flugi frá London til Íslands á miðvikudagskveldið og í örvæntingu sinni leit hann upp á upplýsingaskerminn á Stansted og sá flug til Árósa snemma á fimmtudagsmorgun. Fannst honum sérdeilis tilvalið að skella sér á þetta flug enda kauði búin að fá sér nokkra drykki það kveldið. Ekki fannst honum þetta jafn sniðug hugmynd þegar hann kom til Danaveldis og fékk svartan blett á samviskuna. Mig grunar að bletturinn sé í svipaðri stærð og sá sem hreiðrar um sig á samviskulíffærinu mínu. Ég er hinsvegar búin að týna lyklinum að herberginu með aflitunarefnunum. Hann er einhversstaðar í hillunum á maganum mínum. Því hafa undanfarnir dagar farið í að eta aldargamlann danskan mat með tilheyrandi prumpuserimóníu, rólegheitadrykkju og hygge. Hef ég ekki mætt í vinnuna síðan á þriðjudaginn. Sveiattan... Ég fæ bara í magann þegar ég skrifa þetta. Ég sem var búin að lofa prófessornum mínum að skrifa skýrslu um Lévy grunna og heildun m.t.t. þeirra, Poisson vaxtarlíkön og um sönnun á tilvist ákveðinna Lévy grunna.... eða eitthvað álíka áhugavert.... fyrir mánudag.
Sindri kom sér þó til Kaupmannahafnar í morgun þar sem syndaaflausn mun hefjast með ýmsum fundarhöldum. Ég hélt hinsvegar áfram að fá mikil og ljót bit samviskunnar og verð ég líklega útbitin eftir helgina enda er planið þannig fyrir daginn í dag að ekki verður snert á neinni líkindafræðinni fyrr en máski kl. fimm að staðartíma á morgun. Dagurinn í dag hefur verið í eigu djöfuls að nafni Þunnildasonur. Það var nefnilega glatt á hjalla í gær. Ostar og rauðvín með Sindra Solveig, Dorte, Keld og Monicu áður en lagt var af stað í teiti sem endaði svo á heldur vitlausri barferð. Fusss.. já, fuss segi ég.
Nú er ég sem lítið folald sem saknar móður sinnar. Græt í koddann og hneykslast á aga- og rótleysi mínu. Hvar endar þessi dimma og órudda gata þar sem glataðar sálir sikk-sakka sem aldrei fyrr og vita ekki í hvorn fótinn á að stíga? Eins gott að ég finni einhvern vel lýstan göngustíg því nú hefst tímabil tvöfaldrar kennslu og of mikilla greinaskrifa.

1 Comments:

Blogger Skringsli said...

Æ, Krissa mín! Knúsíknús.

2:09 e.h.  

Skrifa ummæli

<< Home