sunnudagur, júlí 31, 2005

Skæli-skæli-snökkt-snökkt

ætlaði að fara að setja linka inn og þá hvarf allt... og þá er bara best að skipta um lúkk. það er verslunarmannahelgi og mig langar að vera á innipúkanum á Íslandi. ekki hér í þessu rigningar- og þrumuveðri í árósum. það væri nú samt alveg notó að vera inni og hlusta á rigninguna ef maður væri í góðu skapi. ég er það ekki. ég er alveg að deyja í sálartetrinu af því að i-podinn minn er farinn frá mér. það er eitthvað dáið inní mér. ég er þvílíkt búin að flörta og reyna við jákvæðnina síðan á fimmtudag og á laugardeginu hélt ég jafnvel að ég myndi jafna mig. nei. í dag kom sprenging. raunveruleikinn sparkaði í rassinn á mér. ég er alveg ónýt án hans. fullt af dóti inní honum sem ég á ekki neinsstaðar. æ, ætli ég fari ekki bara að skæla. ekki bætir úr skák að tryggingarnar vilja líklega ekki gefa mér nýjan kall þar sem ég á ekki kvittun fyrir eiginmanni mínum. æ, æ... bágt ég á. búin að missa besta vin minn og þarf að læra að hjóla, labba, fara útí búð, í stærtó uppá nýtt. verð bara að safna péning fyrir nýjum manni og ég sem er ekki einu sinni búin að finna pening fyrir þeim gamla. hann var borgaður með íslenskum yfirdrætti.
vonandi gerist eitthvað himneskt eða skemmtilegt bráðum sem ég geti skrifað eitthvað jákvætt og fallegt.

laugardagur, júlí 30, 2005

Mannræningjar í Osló City

Í sveitabænum Osló var eiginmanni mínum STOLIÐ sem og veskinu mínu með öllum kortunum mínum. Mikið er ég leið og hef ég stundað stanslausa sjálfsvorkunn síðasta sólarhringinn. Ég sakna hans einstaklega mikið. Hann er nefnilega ekki einungis fagur heldur er hann gæddur miklum persónutöfrum og hans innri persóna hefur blómstrað sem aldrei fyrr síðastliðnar vikur. Hef ég grunaða einhverja ósvífna unga tölfræðinga um verknaðinn, en líklegt þykir að gripnum plús buddu hafi verið stolið þegar ég sat á veitingastað einum ásamt þessum lýð. Þessi fimmtudagur var sem sagt mikið mis. Ég hélt diskó-fyrirlestur. Skjárinn blikkaði svo mikið að ég gat varla horft upp á tjaldið. Svo þessi ógæfa. Ég fór í svo mikla fýlu, af því að ég átti engan pening og allt var svo svart og ljótt og kleprað, að í ógleðinni breytti ég miðanum mínum heim og beilaði því á að hitta Solveigu og Monicu. Fór bara strax heim, algjör egóisti. Grey Solveig, sem enga peninga á, búin að taka frí alla helgina frá vinnu og alles... Ég er algjör dóni, en svona er þetta. Hausinn minn var í flækjuástandi og ég hugsaði engan veginn skýrt þegar ég vaknaði í gærmorgun eftir svefnlitla nótt sem fýlupúki.
Annars var restin af ráðstefnunni svona la-la. Skildi nú ekkert of mikið af þessu dóti sem ég heyrði... og talaði ekkert við of mikið af fólki þarna. Ég er svo asocial í þessum bransa. Fyrir utan Dísu og Steven vin hennar (sem björguðu mér) þá held ég að ég hafi talað meira við norskan ótölfræðilegan nágranna minn á stúdentagörðunum en tölfræðingana. Toppurinn var líklega að verða tipsí af spriklandi víni í móttökunni í ráðhúsinu í Osló. Það var nefnilega ókeypis. Botninn var auðvitað mannránið, en það sérstæðasta þótti mér að þegar við tékkuðum okkur út af stúdentagörðunum þurftum við að skila sænginni, koddanum, rúmfötum og GARDÍNUNUM úr herbergjunum!!! Við erum að tala um að ég var þarna í sex daga... og var inná herberginu svona 8-10 klst á sólarhring. Max. Hef aldrei heyrt annað eins. Ég hefði átt að pissa á gardínurnar og skila þeim svo Norsararnir hefðu eitthvað til að þrífa. Hefði alveg getað tekið upp á því miðað við súra attitudið mitt þarna í gærmorgun. Hataði heiminn og heimurinn hataði mig.

Æ... ég sakna hans Mr. Pink svo mikið... Þið sem þekkið eitthvað af bræðrum hans og frændum. Biðjið þá að skila kveðju til hans ef þeir hitta hann einhverntímann. Líklegast þykir að þeir myndu hitta á hann einhversstaðar í Austur-Evrópu eða í Osló City. Mr. Pink... if you are out there.... I miss ya, I love ya, I need ya.

Súrsætar kveðjur frá Aarhus C.

föstudagur, júlí 22, 2005

Norge með bauga

Er á leiðinni til Norge eldsnemma í fyrramálið. Er að fara halda fyrirlestur á tölfræðiráðstefnu. Agalega spennandi. Hélt prufufyrirlestur í morgun og stamaði sem aldrei fyrr. Vona að þetta gangi betur í næstu viku. Núna ætla ég að fá mér bjór. Það er langt síðan að ég hef fengið mér drykk í Fjárhúsum. Partí, partí og beint út á flugvöll.
Góða viku.

fimmtudagur, júlí 21, 2005

Ógeðisskóli og draumfarir

Hér er ég – stóri kvartsjúki fuglsunginn. Mikið langar mig að kvarta. Mér finnst svoooo leiðinlegt að vera byrjuð aftur að tölfræðast. Æ, æ og ó, ó. Held ég hafi sjaldan gert mér jafn mikið grein fyrir því að þetta á hreinlega ekki við mig eins og akkúrat núna. Er búin að fara í vikulega kaffi&cakes hjá deildinni þar sem maður getur fengið illt í eyrun af því að sumir tala svo hátt og ógurlega og leyfa manni aldrei að klára setningarnar sínar. Stundum er líka þögn. Alger þögn. Svo byrja ópin aftur, svona eins og sprenging. Skil ekki alveg hvernig þetta er hægt. Sér í lagi eru það tölvumennirnir öskra. Ég hræðist þá. Þeir eru ókurteisustu menn í heimi. Einhverntímann áður en ég flý þennan stað ætla ég að taka upp eitt stykki kaffitíma. Jökk, jökk, jökk. Já, hér er vond lykt, samansaumaðar og ferkantaðar verur. Plús nokkrir englar inná milli.
Annars bara hress. Skólaþunglyndið og tölfræðiofnæmið láta ekkert á mig fá. Heldur ekki það að tölvan mín hafi sofnað og lyfið sem vekur hana aka ac adapter er ónýtt. Það er alveg hreint ágætt að vera komin aftur... þó ég sakni landsins í norðri. Það er búið að vera gaman að hitta vini sína, göturnar sínar, hjólið sitt og íbúðina sína.
Ég er svo jákvæð. Mest samt eftir klukkan sjö. Ég get nefnilega aldrei vaknað á morgnanna þar sem ég fór alltaf alltof seint að sofa á Íslandi. Svo dreymir mig líka svo einkennilega. Í gær dreymdi mig draum sem var nú samt ekkert einkennilegur þar sem öll atriði draumsins tengjast lífi mínu undanfarið. Devendra Banhart og einhverjir vinir hans vildu leigja íbúðina mína á daginn til að spila tónlist í. Ég leyfði þeim það af því að mér finnst þeir kúl og ég átti enga peninga. Svo fóru þeir í hálfgerða fýlu út í mig fyrsta daginn af því að ég var ekki vöknuð þegar þeir komu og þeir þurftu að bíða eftir að færi í sturtu og klæddi mig. Ég fór að gráta fyrir utan heimilið mitt sem var skólastofa í Verzlunarskólanum. Ætlaði svo að halda fyrirlestur þar en gat það ekki af því að ég grét svo mikið. Þegar ég kom heim voru hetjurnar búnir að vera að elda og þrifu ekki eftir sig, en ég þorði ekki að segja neitt. Svo næsta dag komu þeir og nágranninn kvartaði og ég fór með þeim út en íbúðin mín var skyndilega stödd á einhverjum frumstæðum stað. Ábyggilega Africa þar sem Liljan er að fara. Þar komu börnin með fullorðinshausana sem mig dreymir svo oft. Þau eru óþolandi. Pínkulitlir krakkar með fullorðinsandlit. Oj... finnst þau ógeðsleg og ljót. Þau vildu berja mig en ég veit ekki af hverju. Allir stungu mig af og ég var barin af fullorðinshausunum. En samt ekki fast af því að börn eru ekki mjög kraftmikil. Svo fóru þau og ég var alein og það var bara myrkur og ég var svo hrædd. Svo vaknaði ég. Merkilegt hvað hægt er að þræða marga hluti sem akkúrat eru að gerast í kringum mig núna inn í einn og sama drauminn.
Já, já.... þetta er komið nokkuð gott. Vill benda á að ég er farin að hlaða nokkrum myndum inná netið góða. Linkar einhversstaðar þarna hægra megin...
Góðar stundir.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Ísland er ágætt land

Mætt aftur til Dene með rigninguna með mér eftir óhugnarlega erfitt ferðalag. Var ég súr, sveitt, þunn, ósofin, skítug með hjálm- og heysátuhár í þessu ógeðslega leiðinlega ferðalagi sem REK-AAR er. Missti af lestinni minni klukkan hálftíu og komst því bara með næturlestinni. Hún tafðist og ég fór þess vegna að sofa klukkan hálfsex. Mikið var ég nú hress þarna í morgunsárið. Jökk. Hef ég ákveðið að versla eigi meir við DSB, kannski bara í neyð. Hef lent í svo miklu veseni með þetta fyrirtæki undanfarin ár að ég verð bara kreisí á að hugsa um það. Ég legg til að allir sem vilja, reyni að bojkötta DSB. Fokk DSB. Tek bara rútu til Kaupmannahafnar frá og með núna.
Já, já. Annars var bara líf og fjör á Íslandi. Með betri Íslandsferðum síðasta árið. Þar var margt brallað og til þess að reyna að koma mér í bloggham sem ég missti fyrir einhverjum mörgum mánuðum ætla ég að þræða tölur í dagbókina. Ég fór uppá Skaga á Skagamótið fyrir litla polla. Minnsti frændi að keppa. Yndislegar dúllur að standa á höndum í miðjum leik… aðallega þó varnarmennirnir. Fór líka í afar skemmtilega afmælisveislu hjá Svanhildi með tilheyrandi kóngadansi og djammsi. Bláa lónið var einnig heimsótt sem og Grindavík þar sem ég reyndi að kaupa Grindjána í verstu sjoppu í heimi. Legg til að allir sem vilja, reyni að bojkötta fyrstu sjoppuna í Grindavík. Hún er vond með kleprakuntukellingastarfskonum. Ég hlustaði líka á tónlist. Fór aftur á Antony and the Johnsons og það var allt í kei en á Voxhall var hann betri. Hann syngur náttúrlega eins og engill. Himneska röddin. En ég veit ekki hvort annað hafi verið jafn himneskt. Ég legg einnig til að allir sem vilja reyni að bojkötta Austur Indíafélagið. Ég veit það er erfitt því maturinn þar bragðast eins og engill ef maður mætti borða slíka. Fór þangað með vinkonum mínum og lenntum við í vondu veseni. Fíbbl við vinnu með prinsipsýki. Hitti loksins rúsínubollu að nafni Kristófer SillluogStebbason. Kristjana fór líka í ferðalag uppá Snæfellsnes með góðu fólki og góðum börnum. Svanhildi & co., Hrafnhildi með hvítt, bleikt og lilla hár og Lúkasi með eitt blátt og eitt brúnt auga. Túrhestuðumst smá, lékum okkur í rennibrautunum í Borgó og höfðum það notó. Lilja vinkona er svo að fara í reisu til Afríku og hélt Africa-party þar sem hún var kát í veiðivestinu og tilheyrandi múderingu. Fyrir áhugasama þá er Lilja komin með Africa-blogg – flodhestar.blogspot.com. Svo var bara gaman. Smávegis djamm með sing-star, capprinia, öldrykkjum, fjölskylduboðum og gamni. Já, það var gaman á Íslandi.
Annars er sálartetrið mitt bara í fínu standi eftir fyrsta frí sumarsins, fjármálanebbinn minn er brotinn og mig langar strax í frí nr. 2. Ég faðmaði ekki skrifstofuna mína þegar ég hitti hana í gær. Ég skyrpti á hana. Græn og eitruð slumma.
Bless.

föstudagur, júlí 08, 2005

Elska fríið mitt...

Síðasta vika er búin að vera sérdeilis mikil gleði. Skrópaði í skólanum og
skellti mér á Hróa. Jösús, það var gaman. Svakalega huggulegt. Dr. Sig og Dr. Bjørk voru indælu förunautarnir mínir þetta árið. Vorum við allar eins og englar og allt gekk eins og í sögu. Ég og Sig vorum svaka heppnar að Anders hinn góði leyfði okkur að gista í sínu tjaldi og var það alveg agalega fínt. Heyrðum alveg helling af tónlist. Sonic Youth, Le Tigre, Mugison, Hidden Cameras, The Faint, The Dears, Block Party, Khonnor, Devendra Banhart, Joanna Newsom, Roots Manuva, Kano, Interpol, Kora-hörputónlist frá Mali, Snoop Dog, Duran Duran... og ég gæti talið upp enn fleiri... Svona eftir á þá var Hidden Cameras ábyggilega best og auðvitað hin fögru Devendra Banhart & síðhærðu álfarnir hans og Joanna Newsom. Loksins, loksins sá ég Joönnu og allt var svo fallegt og ég fékk tár í augun. Duran Duran var svakalega vont en maður tók nú samt nokkur dansspor. Svo grúppíuðumst við smá - hittum Devendra og tókum mynd af okkur saman og ég fékk knús og alles. Mér fannst við samt ekkert hallærislegar.



Mikið agalega vorum við í skýjunum eftir það. Jamm... það var allaveganna svo gaman að við gleymdum að borða og einu sinni leið næstum því sólarhringur milli máltíða... strangt prógram og auðvitað reyndum við að nota allar lausu mínúturnar í bjórkaup. Fór svo á Accelerator á þriðjudaginn. Aftur Sonic Youth, Devendra og Joanna Newsom og svo plús Coco Rosie, Teenage Fanclub, Caribou, Magnolia Electric Co., Colleen og eitthvað fleira. Það var alveg frábrært. Coco Rosie var alveg geðveikt sem og auðvitað allir hinir. Mmmm... svo gaman, svo gaman og við enduðum svo á því að fara á hið ágæta
Kulturbolaget aka KB og dansa bjórinn burtu fram eftir nóttu. Æææ... langar að vera alltaf á svona festivölum. Stórkostlegir dagar með afar indælu og þægilegu fólki.
Hér eru svo nokkrar fleiri myndir... Fyrst Joanna Newsom og Devendra að syngja Amour Fou eftir síðhærða gítarálfinn hann Andy...

Og svo Dr. Sig með Devendra...


Nú er það bara Ísland. Fór á barinn í gær. Hann er alltaf eins, en þó notalegur. Svanhildur litla átti afmæli og verður stórafmælisboð á morgun. Verði sumar og sól.
Góðar stundir...
Kristjana