föstudagur, desember 30, 2005

verði gleði með yður...

komin aftur í baunalandið góða sem klæðist hvítu þessa dagana. þykir mér alltaf mjög gaman af snjóhríðum og ófærð... en það var ekkert ofsalega gaman að þurfa að fleygja sér til danaveldis á slíkum vetrardegi sem gærdagurinn var. kastrup ekki alveg að gera gott mót þegar svona viðrar. þurfti að hringsóla í kringum höfuðborgina vegna þess að kastruparar kunna ekki að moka snjó og svo var hálfgert kaos þegar lent var. klukkutíma að komast að flugvallarbyggingunni sem geymdi ýmsa óþægilega víbra þegar inn var komið. fólk ekki mjög kátt við tafir og endalausa bið. náði þó að komast í kotið mitt áður en nýr dagur hófst. en æ, æ og ó, ó hvað er leiðinlegt að ferðast hingað. langar að flytja árósa á sjáland... en þá væri þessi blessaði bær líklega ekki jafn huggó. jótar eru nefnilega betra fólk en sjállendingar. og ég stend við það.
já, já... annars bið ég bara að heilsa ykkur og óska ykkur magískrar gleði yfir áramótin. hlakka til að prófa dönsk áramót. verður vonandi himneskt þó svo að ég væri nú alveg til í að vera á bræðraborgarstígnum í nýja fína paradísarkotinu hennar svönu litlu.
luv...

fimmtudagur, desember 22, 2005

god jul...

takk fyrir hamingjuóskirnar ljúfurnar mínar. er búin að vera mikil gleðipíka undanfarna daga eftir þessar stórskemmtilegu vinnufréttir. fyrsta sem ég gerði var að fá mér meiri yfirdrátt þar sem ég verð ekki atvinnulaus eftir skil á ritgerðardruslunni. svo er ég búin að kaupa mér margar gjafir, borða góðan mat og drekka fágaða bjórdrykki. annars er þessi vinna hjá cfin sem stendur fyrir center for functionally integrative neuroscience. þar ætla ég vonandi að dúlla mér í ýmsum verkefnum og sýna hvað ég kann... sem ég nenni engan veginn að skrifa um hér! letidrullan ég. en já, ef ég kann vel við þetta og mannsarnir kunna vel við mig... þá á ég von á þriggja ára stöðu hér í fjárhúsum! aldeilis sem maður þarf að taka stórar ákvarðanir. fuss.
annars fer að styttast í jólin og ég ekki enn búin með jólagjafakaupin... finn reyndar ekkert fyrir þessum jólum. veit hinsvegar að þau eru að koma. er bara í mínus jólaskapi og finnst eins og ég sé bara að fara í einfalda helgarferð til íslandsins. held ég skelli mér til kóngsins københavn á morgun svo það er eins gott ég klári þessi jólakaup og trilljón vinnuverkefni í fyrramálið. sé það ekki gerast... maður getur þá alltaf unnið heima um jólin... hef reyndar heldur ekki séð það gerast. hmmm... þetta reddast samt alltaf. kannski það verði vonskuveður á aðfangadag og ég föst á kastrup. þá gæti ég allaveganna reynt að vinna. jæja... ætla að fá mér drykk og hygge mig...
ást&hamingja til allra og gleðileg jól...
ps fyrir ykkur lufsurnar mínar sem lesið þetta... ég komst bara engan veginn í jólakortagerð í ár. svo ég sendi ykkur bara ýmiskonar fagrar óskir að eigin vali með hugboðum.

mánudagur, desember 19, 2005

jólaskass

mikið að gera í jólahlussunni. ég er orðið hálfgert jólahlass. búin að vera síétandi undanfarna daga. julefrokost með skolen, jólamatur með vinalingunum góðu, matarboð hjá dísu draumakokki og þetta hættir ekkert fyrr en á nýja árinu. í kvöld á svo að éta víkingamat á veitingastað einum með nokkrum dýrlingum. hef engan tíma haft fyrir vinnu, þrif eða jólagjafir. bara þynnku, slæma hegðun, týnda lykla og hygge. svo stressið er jú viðloðandi frú kristjönu. ég sem ætlaði að kaupa útpældar jólagjafir, skrifa jólakort og alles... hmm... jamm. annars ekki mikið að frétta úr fjárhúsum. nema jú að ég er eiginlega búin að fá vinnu! allaveganna þriggja mánaða prufutíma. ekkert nema gott um það að segja. var á fundi í dag sem gekk bara svona líka vel... þrátt fyrir að ég hafi verið næstum dáin úr stressi útaf þessu viðtali síðustu daga. ætti að drepa eitthvað af þessum stressköllum sem lifa inní hausnum á mér að vita að ég þarf ekki að hugsa um þessi atvinnuleysismál sem ætluðu kannski að drepa mig. gott mál.
lifið vel og lengi.
luv...

miðvikudagur, desember 14, 2005

gúfftími

mikið er ég fúl út í insound. fokk insound. eða kannski ég ætti að vera fúl út í ameríska póstþjónustu. búin að bíða ógeðslega lengi eftir geisladiskasendingu. pantaði sex stykki í byrjun október. dótið var hinsvegar ekki sent af stað fyrr en 16. nóv því það var eitthvað sem var ekki til á lager. nú er svo alveg að koma 16. des og þessar elskur eru ekki enn komnar. held bara að mig langi ekkert í þessa diska lengur. hefur þetta dregið úr plötunetkaupum síðustu misseri. það er kannski gott. þess í stað hef ég ákveðið að fá mér nýtt áhugamál – ts aka trendsales.dk. búin að díla mína fyrstu sölu og alles. ætli ég verði ekki orðinn forfallinn ts’ari bráðum. stórhættulegar þessar netbúðir.
annars er veisla næstu tvo daga. litli frændi búinn að bjóða stóru frænku í veislumat í kvöld... mmm... hann er sérdeilis góður kokkur hann frændi. á morgun er svo keila og julefrokost og svo verð ég líklega þunn. já, ég kann það.

sunnudagur, desember 11, 2005

jólafrussuös

síðasta vika samanstendur af fáeinum rólegum andartökum, nokkrum energískum og öðrum verri og síðast en ekki síst handfylli af yndi. andartak. einkennilegt orð. já, það sem gerst hefur er m.a. að bíll keyrði á mig. snerti mig öllu heldur. ég hoppaði hæð mína í burtu og meiddi mig ekki. ég talaði við eibbu mína í dágóðan tíma og var það mjög afslappandi þar sem ég hef eigi talað við stúlkuna svo mánuðum skiptir. ég fór í bíó og sá sögu af ofbeldi. ég sá í fyrsta skipti bláan himinn síðan ég man ekki hvenær. ég hughreysti mann og annan. hughreysti einnig sjálfa mig. svaf vel og illa. fann gestaþraut í íbúðinni minni. fann villu í forritinu mínu. hataði það. hata að geta ekki lagað hana. hataði geisladiskana mína. beið eftir nýjum geisladiskum. beið eftir helginni. fagnaði helginni. hitti josefine hina sænsku í fyrsta skipti í langan tíma og varð hamingjusöm í veglegu stelpuboði. þar ræddu sjö ungar dömur um veikara kynið, femínisma og allt annað. slúðruðum, rökræddum og drukkum mjög hnitmiðað. reyndi að kaupa jólagjafir. keypti þó mest bara gjafir handa sjálfri mér. fékk taugaáfall útaf stressuðum mannfjöldanum. það ku vera bannað að brosa í jólaösinni. meira að segja í danmörku þar sem maður getur oft glaðst við að þiggja bros frá ókunnugum og svara í sömu mynt. gafst upp á jólagjöfum og fólkinu sem strunsar, sér mig ekki og labbar inní mig. fór heim og óverdósaði af kaffi. sá blue velvet. svaf lengi. gaf mig aftur á vald jólastressins og nú reyni ég að sjarma tölfræðina vopnuð kaffi, svífandi tónlist og íslenskum pepperoniosti.

sunnudagur, desember 04, 2005

des mættur...

agalega indæl þessi helgi. tónleikarnir á föstudaginn voru alveg ótrúlega skemmtilegir. langt síðan það hefur verið svona gaman á tónleikum, enda báðar hljómsveitirnar alveg luvlí. fólk var líka bara almennt svo glatt og það gerir mann svo hamingjusaman. notaði tækifærið og slappaði vel af allan laugardaginn sem endaði í himnesku stelpukveldi þar sem vinkonur horfðu á vinkonur sem er frekar lásí dönsk mynd og hina ótrúlega flottu sin city. spjall, hygge og kílóábætandi ólifnaður. svo ég er bara sérdeilis glöð og finnst þessi sunnudagur notalegur. ekki oft sem það gerist. annars var ég að fatta að það eru að koma jól. ég er ekki alveg með á því. er í engu jólaskapi. er nú svo sem heldur engin jólastelpa. er lítið fyrir skraut, seríur og svoleiðis. ég er einhvern veginn immune fyrir þessu. tek varla eftir seríunum og jólapuntinu í bænum. venjulega næ ég mér í jólastemmara á þorlák. það mun hinsvegar ekki virka þetta árið þar sem ég verð fjarri góðu gamni. er farin að sjá þvílíkt eftir því að fara svona seint heim. engin barferð með svönu minni eða neitt. ég verð að finna einhvern fjárhúsing til að koma með mér í jóladrykk á þorlák. gæti orðið erfitt þar sem allir verða örugglega farnir eitthvað út í buskann. fullgróft að finnast það í lagi að mæta í keflavík city tveimur tímum fyrir jól. ansans...

föstudagur, desember 02, 2005

mmm.... helgarland

nú fer að líða að brottför – ferðinni er heitið í helgarland. kætir það mig með eindæmum. nú eru til smá monningar á reikningnum svo það er best að fagna því og kaupa sér nokkra drykki. lítið verið um almennilegar barferðir undanfarið. er vongóð um að tónleikar kvöldsins verði sérlega vel heppnaðir og ég vakni sæl og ljúf á morgun. enda ekki á hverjum degi sem tvö stykki girnileg dönsk eyrnakonfekt spila. fyrst skal þó simúlerað aðeins meira.
annars er ég mest lítið búin að gera annað en að vinna undanfarið. sá þó ógurlega fyndna mynd eitt kveldið. þetta er peter jackson myndin meet the feebles frá 1989... bjargaði vikunni! fyrir alla þá sem hleypa myrkrinu í lundina, þá mun þessi mynd örugglega hjálpa. tékk it át. svona pervertísk og ofbeldishneigð útgáfa að prúðuleikurunum með eiturlyfjum, pornói og látum. froskar að sprauta sig, flóðhestar að snappa og svona... ég er kannski kreisí, en mér fannst hún skondin.
luv...