miðvikudagur, júní 29, 2005

Bannað að glápa

Hún yndislega Joanna Newsom er pikkföst í hjarta mínu. Ég elska þennan disk hennar svo mikið. Það sem mér finnst einkennilegt við þetta er að ég er eiginlega búin að hlusta á þennan disk stanslaust síðan í september á síðasta ári. Venjulega þarf ég að senda diska sem ég ofspila í frí, en ekki þennan. Ástæðan fyrir því að ég er að segja frá þess er sú að nú eru bara nokkrir dagar þangað til að ég fer og hlusta á hana. Meira að segja tvisvar. Ég er svoooo spennt. Þessi rödd og harpan hennar bræða mig alveg – svo fagurt, svo fagurt.
Áðan var ég að hlusta á hana í Mr. Pink. Þá fór ég að ímynda mér hvernig það væri að gráta gulltárum því ég er viss um að ef það væri hægt þá myndi ég gráta slíkum tárum undir fögrum tónum hennar. Nema hvað... heldurðu ekki að ungfrúin hafi ekki bara tárast út á miðri götu. Er svo viðkvæm sál. Grét ímynduðum gulltárum útaf skyndilegri augnablikshamingju. Mjög pínlegt og fólkið sem ég mætti á leiðinni glápti bara á mig. Agalegt... en allaveganna. Það er bannað að glápa á grátandi fólk, sér í lagi ef það grætur gulli. Já, muniði það.

Hamingjutárakveðjur,
Kristjana sem bíður spennt eftir helginni

sunnudagur, júní 26, 2005

Sömmerí

Er búin að taka unaðslega, langa og fína helgi hérna í Baunalandi. Hér er endalaust gott veður og þá er maður hamingjusamur og jákvæður. Er létt í lund og leik á sérhverri stund. Á Skt. Hans fór ég í risapartí í háskólagarðinum sem samanstóð af grilli, báli, drykkjum og mellukeppni fyrir make-up artista. Það var svo gaman og ég gleymdi að fara heim. Var þess vegna afar þreytt í vinnunni daginn eftir. Heppilegt var þó að Monica bauð í stelpulunch í háskólagarðinum og ég tók mér bara frí það sem eftir lifði af deginum... og svo er þetta líf bara búið að vera endalaus notalegheit. Dinner á ströndinni með hvítvíni og g&t´s... Fór svo í heimsókn til Hrafnhildar í gær og tjillaði í garðinum hjá henni. Endaði í veislu... hún er sérdeilis mikill höfðingi heim að sækja. Algjör eldhússnillingur... mmm... ef ég myndi daglega borða svona mikið eins og ég gerði hjá henni, þá væri ég örugglega offitusjúklingur með sykursýki. Einn af nýjustu diskunum mínum bem-vinda vontade með mice parade passar afar vel við þessa sumardaga. Mæli með honum í sumargleðinni. Já, já... sól og sumar. Elska það. Brúnkan er samt harðlífi. Kemst ekki út.
Hvað skal annars segja. Hamingjusólin er gædd einum ókosti. Jákvæðnin gerir ákvarðanatökur sem tengjast peninganotkun alltof auðveldar. Er búin að splæsa alltof vel í dýra hluti um helgina – fór á kostum. Sjæse... sem þýðir það að Hróarskelda er algerlega út úr myndinni þetta árið. Snökkt. Snökkt. Snökkt. En ég lifi það alveg af og svo hafa gamlingjar eins og ég ekkert gott af tjaldsukki og drullu. Ég kemst þó allaveganna á Accelerator.
Best að fara að læra núna. Þarf nefnilega að undirbúa söluferð til Álaborgar á morgun. Ætla að selja sjálfa mig. Reyna að fá einhvern stærðfræðikall til að kaupa þá hugmynd að vinna með mér að smá verkefni næstu mánuðina. Spennandi.... ha.
Kærlig hilsen,
Kristjana

mánudagur, júní 20, 2005

Glitrandi sál í bleikum líkama

Jííí... mikið var þessi helgi ljúffeng. Hér í Danaveldi hefur verið sérdeilis mikil sól og blíða. Ég er líka búin að vera alger sól og blíða. Svo róleg og góð. Fór í sund og synti báða dagana, kíkti á ströndina og uppskar þessa fögru bleiku hulu. Vildi að allar helgar væru svona. Var sötrandi ýmisskonar drykki alveg alla helgina næstum, án þess þó að vera e-ð að djammsa og fylleríast. Settleg og fullorðin. Djöfull er það notalegt. Ætlaði að læra mjög mikið á sunnudaginn en eftir tvo bjóra og góðan mat á Englinum, bjór í garðinum hennar Dorte... þá var ekki aftur snúið. Dorte er góður gestgjafi og kom svífandi niður eins og engill með g&t´s og hvítvín... mmm.... Nú er sko hvítvínstímabilið hafið. Verð samt að passa mig á því.
Er á leiðinni útí sólina aftur og fá mér einn eða tvo áður en ég kíki á tónleika... sem minnir mig á það. Hiphoppið í síðustu viku var helvíti fínt bara. Ekkert bling-bling hiphop á ferðinni þar. Þeir voru frekar pólítískir og attitudið var alveg í hámarki. You fucking political whores! En ég fílaði þetta... fannst þetta fyndið. Væri vel til í að kíkja á svona tónleika í Bronx... það var nefnilega ekkert líf í Dananum á þessum tónleikum.

Með léttum og skoppandi kveðjum,
Kristjana

miðvikudagur, júní 15, 2005

Flóttakona

Ja hérna hér... Ungfrúin stakk af úr skólanum í gær. Ætla að fara þangað fyrst aftur á morgun. Ég fékk nefnilega ógeð af nemendunum mínum sem koma alltaf og trufla mig. Ósjálfbjarga grey. En ég get ekki sagt nei og þess vegna lét ég mig bara hverfa til þess að fá vinnufrið. Ég þarf víst aldrei að hjálpa þeim aftur eftir föstudag. Júbbí kóla. Vinnufriðurinn er nú ekkert eðal hérna heima heldur. Helst eru það græjurnar mínar sem trufla mig... verð að tjúna þær soldið til að yfirgnæfa hljóðin frá bílunum og fólkinu út á götu. Búin að eyða doldlum tíma í að finna uppáhalds læridiskinn fyrir daginn í dag... mice parade – obrigado saudade var vinningshafinn. Agalega fín plata… sem ég kann ekki að skilgreina. Ég kann aldrei að skilgreina.

Kvöldið í kvöld er mjög spennandi. Alternative hiphoppararnir í Dälek eru að spila og ég held ég þurfi að taka með mér eyrnatappa. Hef heyrt að þeim finnist voðalega gaman að skrúfa upp hljóðið alveg endalaust. Er mjög spennt... enda ekki á hverjum degi sem maður fær að hlýða á öðruvísi hiphop. Var svo ”heppin” að vinna miða á leikana. Doldið kikset... en þá ætti ég að geta keypt mér einn drykk á þessum miklu sparnaðartímum.

Já, já.... hef ekkert að segja eins og sjá má. Luvs&Knúses...

sunnudagur, júní 12, 2005

blabla

Ágætis tónleikahelgi búin. Uppgötvaði þó ekki svo mikið nýtt og skemmtilegt. Norðmennirnir voru aðallega sterkir. Annars var prógrammið ekkert svo svakalega fínt. Nokkrir vinir mínir spiluðu á hátíðinni. Mér fannst þau spila fína tónleika. En ég held að gagnrýnandinn hafi ekki verið voðalega sammála því :-( samt ekkert svo slæmt.
Annars er ég svo einstaklega fullorðin kona að mér fannst erfitt að halda þessa helgi út. Er orðin of gömul fyrir svona mikið af fólki og marga drykki. Fór bara næstum í fýlu út í allt fólkið í restina... uss innilokunarkennd og ógeð. Hmmm... ég er nú í einhverri mótsögn við sjálfa mig... langar nefnilega ofsalega, svakalega, unaðslega mikið á Hróarskeldu.
Já, já... annars var ég að fá nýja Sufjan Stevens diskinn – Illinois. Hann hljómar yndislega. Hann er ótrúlegur. Gaf út einhverjar plötur sem ég þekki ekki fyrir 2003 og svo kom Michiganplatan sem er hin mesta snilld og Seven Swans 2004 og nú kemur svo þessi í ár...Mjög afkastamikill, en hann ætlar sér víst að gefa út disk fyrir hvert fylki í USAinu. Gott að hafa metnaðarfull markmið. Já, snillingur er hann og svo spilar hann á öll hljóðfærin sjálfur.. spilar á billjón hljóðfæri. Ekki amalegt.

fimmtudagur, júní 09, 2005

Dancing queen.....

Tékkiði á þessu... Algjör snilld!

Honeymoon

Já, mér og Mr. Pink kemur alveg gríðarlega vel saman. Erum búin að þeytast út um allan bæ án þess að lenda í rifrildi. Það var þó svo í byrjun, að hann gat ekki hætt að tala, en svo var mér kennt að láta hann halda kjafti.

Annars líða dagarnir agalega fljótt núna. Í gær var stór dagur í lífi mínu. Kristjana sló sitt fyrsta bankalán, er komin með opsparingsreikning, budgetreikning, heimilistryggingu, greiðsludreifingu, búin að segja upp fastnetinu, ræktarkortinu og ég veit ekki hvað og hvað. Nú skal spáð í þessum stykkjum sem heita peningar.

Endaði þennan merka dag á að fara í huggulegt arkitektaútskriftarboð hjá Guðrúnu Gyðu. Varð hálf afbrýðisöm að sjá hversu ánægð og hamingjusöm hún var... ég held að ég verði ekki svona svakalega hamingjusöm þegar ég klára mitt. Heppið fólk sem er að gera nákvæmlega það sem það vill. Ekki það að ég sé eitthvað óheppin... er bara misheppin.

Annars ætlum við Mr. Pink að eyða hveitibrauðsdögunum á Spot. Þeir verða þó rólegaheitadagar... Mr. Pink er búinn að segja mér að hann ætli að sofa alla helgina.

þriðjudagur, júní 07, 2005

Sameining Kristjönu og Mr. Pink

Kristján var svo hrikalega yndislegur að kaupa fyrir mig eitt stykki mini i-pod í Ameríkunni. Burðardýrið frá Friskó til Reykjavík City var svo hinn finnski Samuli. Þaðan tók ungfrú Stella við varningnum sem barst svo til móður minnar í gegnum Bókasafn Kópavogs. Þaðan var hann selfluttur til mömmu Kollu og Guðrúnar Gyðu... sem var svo indæl að smygla honum til Århus. Ég sit sem sagt hér með nýja manninum mínum Mr. Pink – ofboðslega glæsilegur. Ég er nokkuð viss um að minn Mr. Pink er meira kúl en sá í Reservoir Dogs... man ekki hver mér fannst mest kúl þar... en allaveganna var Mr. Pink klikkaður. Ég óska þess vegna sjálfri mér til hamingju með Mr. Pink.
Jamm... ætla að halda áfram að læra á manninn minn... elskann strax.

mánudagur, júní 06, 2005

Veljum skynsemi

Helgin var fín fram eftir kveldi á föstudaginn. Bauð Íslendingunum mínum þremur í mömmumat á föstudaginn og svo fórum við að heyra smá tónlist. Þá fékk ég ofnæmi fyrir víni. Þá rauðu og hvítu. Vissi það alveg en var búin að gleyma.
Svo gerðist bara ekki neitt. Velti mér til hægri og vinstri í bólinu mínu með sjónvarpið og tölvuna uppí. Notaði tækifærið og horfði á íslenskt sjónvarp. Sá nýjan þátt á S1 – Sjáumst með Sylvíu Nótt. Mér fannst hún alveg djöfulli fyndin. Doldið rugl en fyndnir punktar þarna inná milli. Ég gladdist allaveganna alveg svakalega mikið í hausverkjakollinum mínum. Gæti kannski sagt meira um andlegt ástand mitt en þáttinn. Hlakka samt til að sjá næsta og athuga hvort þetta sé í alvöru fyndið.

Jamm... nýtt tímabil hafið. Það heitir ”Nú eru íslensku doktorsnemarnir á skrifstofu B3-28 ógeðslega duglegir”. Ég og Dísa ætlum að gera gott mót í júní. Ég ætla líka að gera gott mót annarsstaðar. Spara og vera soldið fullorðin. Eyddi t.d. ekki monningunum mínum í að sjá hinn gamla japanska furðufugl Damo Suzuki úr hinum legendarísku Can í gærkveldi. Hefði verið forvitnilegt, en skynsemin tók völdin. Á hvort sem er ekkert dankort lengur. Týnt. Og bankinn búinn að taka það íslenska. Ástand.

fimmtudagur, júní 02, 2005

Komin með ræpu

Ég er skyndilega komin með ræpu. Það er nú bara af því að það er mikið að gera hjá kjellingunni og svo er Dísa ekki búin að vera í skólanum síðustu daga svo það er enginn til að röfla í. Við hvern á ég þá að tala í skólanum? Ekki prófessorinn minn. Henni finnst ég nöldrari með afar miklu kvenkyns ívafi. Æ. Ég hlakka til að komast heim í dag.... leiðist viðbjóðslega mikið hérna. Greyið Dorte þarf að hlusta á mig tala útí eitt í kveld... vorkenni henni.

OG... sjæse hvað ég fékk merkilega diska í hús í gær. Átti nokkra mp3 með Lightning Bolt á tölvunni minni, en hef ekki hlustað á það mikið undanfarið. Var allaveganna voða hrifin þarna fyrir löngu... en nú er ég alveg óð... þarna verður maður alveg kreisí. Mikill hávaði. Mæli með þessu. Sérstaklega fyrir Skringslið. Þetta var akkúrat það sem ég þurfti. Vantar nefnilega nýja tónlist... Svanhildur: Nú mátt þú senda mér eitthvað. Mér finnst ég búin að vera svo dugleg að senda þér diska. Þú mátt núna. Plís.

Dreymdi í nótt að Devendra Banhart byggi fyrir ofan mig og væri alltaf að kvarta undan hávaða... meira að segja þegar ég var að spila hann sjálfan. Er það nú... hélt að fólk væri nú ánægt með að maður spilaði tónlistina þeirra.

Til sidst langar mig að segja frá afar skemmtilegu bloggi sem ég reyni að lesa sem oftast hjá henni Hörpu skvís. Hún er snillingur. Vildi að fleiri væru að glögga í þessa átt. Skrifar á ensku um ruglið í London baby fyrir Baunana sína og Frónara. Harpa er arkitekt og átti heima hérna í Árósum í mörg, mörg ár áður en hún gerðist London-pía.

Góðar stunur...

miðvikudagur, júní 01, 2005

Lopastækallar

Búin að fatta af hverju klósettið er aldrei á réttum stað. Það er einhver innri Kristjana sem segir mér að ég vilji ekki finna né fara á klósettið. Það er nefnilega þannig að það er hálfgert uni-sex klósett sem er næst mér hérna. Það þýðir viðbjóðis bremsuför, pissuslettur og allskyns kleprandi viðbjóður eftir karlmennina sem eru augljóslega í meirihluta hér í stæ. Hata það. Ég þarf sem sagt oft að fara á eitthvað klósett sem er í annarri álmu en mín... útaf helvítis stærðfræði lopaköllum sem vita ekki hvað hreinlæti er. Fuss.... Mig langar að hefna mín. Kannski ég pissi í alla karlkyns vaska hérna í byggingunni þegar líða tekur á kveldið. Klebrakuntuvaskar munu þeir þá kannski heita i morgen.

Eins og sjá má nenni ég engan veginn að fara yfir verkefni núna.... nenni aldrei að skrifa neitt hérna nema þegar ég þarf að vinna.

Slembigangur

Ég hata daga sem eru eins og slembigangur aka random walk. Ég er búin að vera svoleiðis í dag. Algjörlega hendingarkennt hvað ég geri. Veit einhvernveginn ekkert í hvaða átt ég er að fara. Lalla mér fram og tilbaka hér í þessum völundarhúsaskóla. Eldhúsið er farið. Klósettið er aldrei á réttum stað. Skrifstofan mín er alltaf að skipta um staðsetningar. Veit aldrei hvar ég enda ef ég fer út úr skrifstofunni minni. Allir nemendur mættir að ná í verkefnin sín en ég bara búin að steingleyma því... enginn verkefni. Uss... totalt kaos í hausnum á mér.

Í dag er síðasti séns á að leika sér með bolta en það verður ekkert úr því af því að það er rigning. Stefán hennar Dísu og Kolla eru bæði á leið til Íslands og verða upptekin það sem eftir er. Vildi óska þess að vinir mínir hérna í Dene væru aðeins sportlegri svo ég gæti fengið smá útrás í boltanum. Vinir mínir í sjónvarpinu eru svo allir farnir í sumarfrí. Seríusjúklingurinn ég veit ekki hvað skal gera í því máli. Ég verð að finna mér ný áhugamál. Tillögur eru vel þegnar.

Góðar stundir...