sunnudagur, janúar 30, 2005

Helgi spelgi

Jájá... þessi helgi tókst alveg með ágætum. Var þó róleg í meira lagi. Er ekki búin að vera mikil Þynnkudóttir og líður frekar vel. Á föstudaginn drakk ég örfáa yfir handboltanum með Dísu, Mette og klamme Þjóðverjanum úr skólanum. Mér finnst hann pirrandi. Djöfuls pakk þessir Þjóðverjar... er ekki að höndla þessa þjóð. Við Dísa plötuðum þennan. Sögðumst ætla heim svo hann færi heim en hittumst svo heima hjá mér korteri síðar og tékkuðum á Súkkulaðiverksmiðjunni. Ferlega nice af okkur. Innviðir staðarins líta afar vel út en þetta kveld mátti þarna finna 18 ára stráka sem litu út eins og þeir væru 14 ára og 14 ára stelpur sem litu út fyrir að vera 20 ára. Unglingapakk. Fór svo með Gerðu og Dísu í eitthvað Íslendingateiti í gær. Mér leið alveg eins og Dönunum tveimur þarna sem skildu ekki neitt. Þekkti nefnilega ekki til fólksins, en kannaðist þó við nokkra (auðvitað). Ég reyndi mitt besta í að losna við feimnishaminn og vera júhú hress og kát. Ég er bara ekki mjög góð í svona spjalli við ókunnuga. En ég reyndi ofsa mikið og fyrir það fæ ég einkunnina átta á dönskum skala. Enduðum allaveganna á Sway með nokkrum úr þessu teiti og var það alveg mjög fínt. Eini staðurinn í Árósum sem mér finnst doldið skemmtilegur.
Held að planið fyrir helgina um að vera ekki í ógeðisham á sunnudegi hafi tekist með eindæmum vel. Eina sem ekki gekk vel var að komast framhjá kebabstaðnum á leiðinni heim án þess að stoppa. Aginn er einhvernveginn ekki til tops svona um miðjar nætur með áfengi í blóðinu. Mmmm... nætur-kebab....
Nú er ég á leiðinni í eitthvað helvítis stærðfræðimatarboð sem ég nenni engan veginn í. Einn útlendingurinn sem er í heimsókn við deildina er að bjóða hinum útlendingunum í mat. Ohhh.... Ég þekki þetta fólk nákvæmlega ekkert enda búin að vera í burtu meirihlutann af þessu skólaári. Langar heldur ekkert óskaplega mikið til þess að þekkja það. Æjj... ég er svo vond kona. Afsakið. Dem... vildi óska að ég gæti verið heim og leikið mér við sjónvarpið en að fara þarna. En ég lifi þetta vonandi af. Múskúluskveðjur...

fimmtudagur, janúar 27, 2005

Krissa massi talar frá Århus City

Nú er kellingin með strengi og alles. Hún Matthildur, stúlkan sem ég fór til í íslenskt stelpuboð um síðustu helgi, hjálpaði mér af stað í ræktinni í vikunni. Hún kann sko allskonar trix. Góð stúlka að nenna að hjálpa hálf ókunnugri fitubollu. Er búin að taka þetta með trompi síðustu þrjá daga... en allir vita hvernig trompið verður að Svarta-Pétri þegar dagarnir líða. En hver veit. Kellan gæti gert gott mót og orðið jafn sterk og kúl og Gyða Sól eftir nokkra mánuði. Djöfull yrði það flott!!! Allaveganna eru buxurnar mínar strax farnar að sprengjast utan af mér útaf massanum.
Annars líða dagarnir hratt og örugglega þessa dagana og undan fáu að kvarta. Er búin að kenna eins og mófó í vikunni þar sem ég er að kenna fyrir Dísu líka í þessari viku og hún er líka að kenna tvöfaldan skammt.... æðislega gaman að vera svona stressaður og alltaf með þessa tilfinningu að maður sé að pissa í sig. Ætla aldrei að læra að vera róleg yfir þessari blessaðu kennslu. Er búin að vera frekar dugleg að vinna en er búin að gera margt annað skemmtilegt líka. Fór í hangikjöt til Gerðu í gær... nammi-nammi-gúff-gúff. Fór svo í hygge í kvöld með Monicu, Louise og Monu vinkonu hennar á Emmerys í kaffi og meððí og svo skelltum við okkur í Øst for Paradis á “Die Geschichte vom weinenden Kamel” eða Söguna um grátandi kameldýrið. Mjög sæt þýsk/mongólsk heimildarmynd um líf fjölskyldu í Gobi eyðimörkinni. Ótrúlega sérstök þessi gamla menning. Hjá þeim fæðir kameldýr unga sem er albínói og vill dýrið ekkert með hann hafa. Allt voða sorglegt. En juuu..... þau eru svo miklar dúllur þessi dýr... og sérkennileg. En nóg um það.
Annars er ekki von á mikið af spennandi efni með þessu áframhaldi. Ekkert skemmtilegt eða kreisí gerist þegar maður fer á ljóshraða inn í heilbrigðu og skynsömu veröldina.... eins og hún Jóhún segir – eintóm leiðindi þegar maður er búin að eiga tvær djammlausar helgar. En hver veit hvernig helgin endar. Ætla allaveganna að fagna með Dísu skvísu á morgun og fá mér örfáa. Hún er nefnilega að fara í qualification exam í morgun. Júbbí!!! Svo langar mig nú líka oggu pínku ponsu að kíkja á nýjasta skemmtistað Århus C - Súkkulaðiverksmiðjuna. Verði stuð.

mánudagur, janúar 24, 2005

Plan B

Ég byrjaði daginn mjög virðulega. Sagði leiðbeinandanum mínum sannleikann. Ég er aumingi. Nú er ég hinsvegar að gera hundleiðinlegar og tímafrekar hermanir og er ælan komin langleiðina uppí háls. Á meðan ég bíð ætla ég að skjóta inn nýja planinu sem ég var að gera á þessum óvelkomna mánudegi.
Nú ætla ég nefnilega aldeilis að byrja að taka á því. Stefnan er sett á að vinna amk 10 tíma á virkum dögum næstu vikurnar, en 4 tíma um helgar. Hreyfa sig svona 2-4 tíma í viku. Hætta að borða kebab á nóttunni. Hætta að drekka sykrað gos. Hætta að drekka bjór í miðri viku, nema um sérstök tilefni sé að ræða. Og síðast en ekki síst... hætta að borða fyrir þrjár manneskjur. Ég er víst bara ein sama hvað raddirnar eru að segja mér. Ef þetta virkar, þá verð ég örugglega ljúf sem lamb næstu vikur. Djöfull langar mig að þetta virki.

sunnudagur, janúar 23, 2005

Fréttir úr myrkraholu ungfrú Kristjönu

Usss... búin að liggja uppí rúmmi í myrkrinu með kveikt á kassanum í allan dag... Ferlega slöpp. Ætli þetta sé ekki uppisöfnuð þynnka frá undanförnum dögum. Búin að dýrka smá Angel og aðrar ljúfar seríur, þamba 3 lítra af gosi, örugglega hálft kíló af pasta með grænmeti og osti, hlauppoka, popppoka, nokkur stykki af brauði í ofni með geitosti... Uss. Þetta er ástand. Sér í lagi þar sem ég hef nú ekki enn komist í að læra og er að fara yfir helstu afsakanirnar sem koma til greina handa leiðbeinandanum mínum á morgun þegar hún kemst að því að ég hef ekkert gert síðan síðast. Og þá var ég nú heldur ekki búin að gera mikið frá því síðast. Ohhh.....
Agglaveganna. Fór á hrikalega spennandi kappleik í gær sem endaði í jafntefli. Uss. Gaman að fá smá keppnis-spennu.
Svo bauð Hrafnhildur mér að koma með sér í íslenskt stelpuboð þar sem Kolla var líka ásamt tveimur ókunnugum íslenskum stelpum, Diljá og Matthildi. Reyndust þær afar indælar stúlkur. Matthildur eldaði dýrindis mat... mmm... nammi-namm... og svo var spilað, drukkið og spjallað. Fórum í 70 mínútur spilið og var það alveg hreint fyndið. Þvílík vitleysa. Fishermans Friend í stað ógeðisdrykks (sem sagt ógeðis bíttað út fyrir himneskt), áskoranir í formi stripps að neðan, hrákusúpu í lófa, gólfefnasleikja . Það var mikið hlegið og svo fórum við líka í nýja actionary sem er alveg ótrúlega skemmtilegt. Ég elska spil. Enduðum svo á að fara í bæinn á einhvern mjög undarlegan stað fyrir neðan ógeðisstaðinn sem ég átti einu sinni heima á. Þá var hann strippstaður og leit reyndar út fyrir að vera það enn. Og þó. Kasínóið sem var þarna virtist þó horfið.Ég var hinsvegar afar lúin kona og fór heim snemma ásamt Hrafnhildi á meðan yngri skvísurnar tjúttuðu úr sér lífið örugglega langt fram á morgun.... Nóttin var nú líka frekar löng hjá okkur gömlu konunum því það tók leigubílinn sem Hrabba pantaði ÞRJÁ KLUKKUTÍMA að koma á svæðið. Þá var Hrafnhildur reyndar farin af stað í leigubílaveiðarnar útí bæ, henni til mikillar mæðu. En hún komst nú heim þrátt fyrir allt. Bara 2-3 tímum of seint.
Annars heyrði ég í frænda áðan... Hann missti náttúrlega af fundinum á laugardagsmorguninn af því að við sváfum "smá" yfir okkur... en þá var náttúrlega það eina í stöðunni að henda sér í drykkju. Hann er svo skondinn... Var víst svo hræddur um að vakna ekki í flugvélina í hádeginu á sunnudeginum að hann fór beint upp á flugvöll af djamminu. Plantaði sér fyrir utan skrifstofu Iceland Express á Kastrup, setti miða á bakið á sér sem á stóð á íslensku. Halló. Ég verð að ná flugvél Iceland Express klukkan 12:15. Vonandi verð ég vaknaður fyrir þann tíma. Það væri fínt ef þú gætir hjálpað mér að ná þessari flugvél. Bestu kveðjur, Sindri Már. Eða allaveganna eitthvað í þessum stíl. Man ekki alveg. Hann er náttúrlega ekki í lagi.
Jæja... Best að finna sér eitthvað meira til að maula á...


laugardagur, janúar 22, 2005

Sammarinn eltir mann...

Ég varð alveg hlessa þegar Sindri Már mætti skyndilega til Árósa á fimmtudagsmorgun. Greyið drengurinn missti af flugi frá London til Íslands á miðvikudagskveldið og í örvæntingu sinni leit hann upp á upplýsingaskerminn á Stansted og sá flug til Árósa snemma á fimmtudagsmorgun. Fannst honum sérdeilis tilvalið að skella sér á þetta flug enda kauði búin að fá sér nokkra drykki það kveldið. Ekki fannst honum þetta jafn sniðug hugmynd þegar hann kom til Danaveldis og fékk svartan blett á samviskuna. Mig grunar að bletturinn sé í svipaðri stærð og sá sem hreiðrar um sig á samviskulíffærinu mínu. Ég er hinsvegar búin að týna lyklinum að herberginu með aflitunarefnunum. Hann er einhversstaðar í hillunum á maganum mínum. Því hafa undanfarnir dagar farið í að eta aldargamlann danskan mat með tilheyrandi prumpuserimóníu, rólegheitadrykkju og hygge. Hef ég ekki mætt í vinnuna síðan á þriðjudaginn. Sveiattan... Ég fæ bara í magann þegar ég skrifa þetta. Ég sem var búin að lofa prófessornum mínum að skrifa skýrslu um Lévy grunna og heildun m.t.t. þeirra, Poisson vaxtarlíkön og um sönnun á tilvist ákveðinna Lévy grunna.... eða eitthvað álíka áhugavert.... fyrir mánudag.
Sindri kom sér þó til Kaupmannahafnar í morgun þar sem syndaaflausn mun hefjast með ýmsum fundarhöldum. Ég hélt hinsvegar áfram að fá mikil og ljót bit samviskunnar og verð ég líklega útbitin eftir helgina enda er planið þannig fyrir daginn í dag að ekki verður snert á neinni líkindafræðinni fyrr en máski kl. fimm að staðartíma á morgun. Dagurinn í dag hefur verið í eigu djöfuls að nafni Þunnildasonur. Það var nefnilega glatt á hjalla í gær. Ostar og rauðvín með Sindra Solveig, Dorte, Keld og Monicu áður en lagt var af stað í teiti sem endaði svo á heldur vitlausri barferð. Fusss.. já, fuss segi ég.
Nú er ég sem lítið folald sem saknar móður sinnar. Græt í koddann og hneykslast á aga- og rótleysi mínu. Hvar endar þessi dimma og órudda gata þar sem glataðar sálir sikk-sakka sem aldrei fyrr og vita ekki í hvorn fótinn á að stíga? Eins gott að ég finni einhvern vel lýstan göngustíg því nú hefst tímabil tvöfaldrar kennslu og of mikilla greinaskrifa.

miðvikudagur, janúar 19, 2005

Populær musik fra Vittula...

Fór á Populær musik fra Vittula í gær í uppáhaldsbíóinu mínu – Øst for Paradis. Ótrúlega skemmtileg mynd. Fyrir þá sem ekki vita er þetta sænsk mynd gerð eftir bókinni Populær musik från Vittula eftir Mikael Niemis. Bókin las ég fyrir ári eða tveimur en hún situr enn fast í mér. Fannst hún nefnilega alveg frábær. Ein af skemmtilegustu bókum sem ég hef lesið undanfarin misseri. Það var þess vegna alveg frábært hversu myndin var trú bókinni. Gæti haft mikið að gera með að maður er búin að lesa bókina í klessu. Held að það sé öruggt að höfundurinn hafi verið vel með í skrifa handritið. Hann ljáir myndinni líka rödd sína sem sögumaður held ég. Við vorum nú samt kannski smá óþolandi í bíóinu í gær... byrjuð að hlæja áður en sum atriðin voru komin alveg af stað... ferlega hallærisleg og glötuð... nei, nei... held nú að það hafi bara gerst tvisvar. Bókin fjallar um tvo drengi sem alast upp í Tornedalen í Norður-Svíþjóð á sjöunda áratugnum. Ótrúlega skemmtilegt sögusvið þar sem Pajala (bærinn sem þeir alast upp í) er svo langt í norðri að hann er “næstum” finnskur, en samt ekki. Tilheyrir því í rauninni engu landi... ef hægt er að segja það. Já... ekki að ég ætli að rekja þessa sögu, en myndin fjallar sem sagt um uppvöxt þeirra vinanna, drauma, sigra og vonbrigði... hahah...., þegar allar nýjungarnar og rokk&ról ná lengst upp í Norður-Svíþjóð eftir þá þróun sem varð eftir stríð. Ég er nú frekar mikill spassi þegar að tjáningu og rituðu máli kemur... svo ég ætla nú ekki að skrifa mikið meira. En ég mæli eindreigið með þessari bók. Og myndinni. Helber snilld.

þriðjudagur, janúar 18, 2005

La bamba...

Ég er alltaf doldið eftir á. Uppgötvaði DJ Dangermouse og The Grey Album í jólafríinu og finnst mér þetta alveg hreint skemmtileg og sniðug plata. Þessi plata er gerð þannig að allar raddir eru af plötunni The Black Album með Jay Z, en öll önnur hljóð eru af The White Album Bítlanna. Svört pata + hvít plata = grá plata. Ótrúlega sniðug hugmynd og útkoman alveg hreint ágæt og öðruvísi. Er samt ekki mikið fyrir svona Jay Z líkt dóterí almennt... en þetta er doldið kúl. Jamm... Hægt er að downloada allri plötunni einhversstaðar á netinu. Man bara ekki hvar.
Annars er lítið nýtt eins og vanalega. Maður fær alveg illt í hausinn og verður flökurt svona í byrjun vikunnar. Held ég að það sé vegna þess að líkami og sál höndla ekki alveg hversu hægist agalega mikið á lífinu þegar helgarnar eru á enda. Jú, eitt nýtt. Ég er hætt að búa inní fataskáp. Tøjstativinu var hent út - mér til mikillar gleði. Megi það hvíla í friði.

mánudagur, janúar 17, 2005

Ljúfa Kaupmannahöfn...

Góandaginn. Nú er helgin búin og er það mikið mis. Sakna hennar strax. Hélt til höfuðborgarinnar á föstudaginn ásamt Dísu skvísu. Ástæðan var Kavoshittingur. Stjáni og Stella eru búin að vera þar síðan í haust en fara frá cph í lok janúar. Það var því ekki seinna vænna en að hitta þau núna. Þau eru mjög heppin... eru að fara að ferðast fullt. London, Ítalía, Sviss og Bandaríkin... á fjórum mánuðum!!! Áttum við alveg æðislega skemmtilega helgi. Vorum ekki komnar fyrr en seint á föstudagskvöld svo þá voru bara teknir nokkrir öllarar og spjallað frameftir. Hygge, hygge. Á laugardaginn þrælaði ég Dísu út í bænum. Ekki að henni finnist það leiðinlegt... og uss... þvílíkur munur á búðunum hér og í Kaupmannahöfn. Á meðan sinntu froskarnir tveir hússtörfum og öðrum málum. Ég var alveg sjúk í allar litlu fínu boligbúðirnar eins og vanalega. Elska þær. Svo eru genbrugsbutikkerne á allt öðrum standard í cph. En þar sem ég á bara feitan yfirdrátt var lítið straujað. Ég myndi örugglega fara á hausinn ef ég myndi búa þarna. En yndisleg er hún þessi blessaða borg. Mig langar að flytja þangað. Svo var sett í Kavoshitting á laugardagskveldið. Þórir og Védís komu með litlu sætu Auði Ísold og við borðuðum ooofboðslega góðan mat. Chili sin carne og svo sojaís með calvadoslegnum kirsuberjum í eftirrétt. Mmmm.... svo gott, svo gott. Var mikið drukkið og spjallað... og skyndilega var klukkan orðin alltof margt. Eiginlega of margt til að komast á barinn. Kíktum þó á nokkra bari á Nørrebro sem voru annaðhvort lokaðir eða alltof fullir... svo úr varð bara hin ágætasta næturganga og smá meiri matur. Held ég að það hafi bjargað sunnudeginum. Engin þynnka. Húrra fyrir því. En agglaveganna... helgin var sem sagt bara best. Borðaði svo í hádeginu í gær með litlu sænsku Josefine sem flutti frá Árósunum í haust á helvíti ódýrum og ágætum mexíkönskum stað á Istedgade. Góða helvítis aðhaldið. Slúðruðum við talsvert eins og góðum dömum sæmir áður en ég stökk í rútuna til Árósanna minna. Þrátt fyrir alveg ótrúlega yndislega helgi þá neita ég því ekki að ég var mikið glöð að komast heim. Er svo heimakær. Sérstaklega urðu mikil fagnaðarlæti þegar ég sameinaðist rúmminu mínu eftir tvær nætur á tvíbreiðri vindsæng sem ég og Dísa deildum. Annars vil ég þakka Kaupmannahöfn fyrir að vera svona yndisleg borg og Stjána og Stellu fyrir að vera yndislegt fólk. Takk kærlega fyrir mig. Stóðuð ykkur eins og hetjur í gestgjafastarfinu.

fimmtudagur, janúar 13, 2005

Ég er eðlileg

Örsjaldan finnst mér ég þó vera óeðlileg. Í gær minntist Hrafnhildur á það að ég myndi alveg ótrúlegustu hluti frá fortíðinni. Held meira að segja að hún hafi sagt með bros á vör að ég væri kannski bara einhverf. Jamm... Þetta er reyndar alveg rétt (þó ekki að ég sé einhverf). Man asnalegustu hluti eins og þeir hafi gerst í gær. Einn laugardag í júlí 1995 milli kl. 03-06 í miðbæ Reykjavíkur átti sér stað eftirfarandi samtal... osv... Líka stórar stundir eins og þegar ég varð unglingameistari í stökki fyrir 10-12 ára ásamt Hröbbu (sem hún man ekkert eftir). Var að spá í af hverju. Kannski hefur líf mitt bara verið svona óttarlega óspennandi og leiðinlegt að ég man alla hluti sem er oggu pínku ponsu lítið varið í. Eða er ég bara með svona gott minni? Eða kannski man ég þessa hluti af því að ég spökúlera oft alveg alltof mikið í hvað ég og aðrir eru að gera og segja? Hugsa stundum of mikið og á stundum virðist meirihluti af lífi mínu eiga sér stað í draumaveröldinni í stað raunveruleikans. Einkennilegt finnst mér þó að til eru nokkur tímabil sem eru afar svört, en flest eru þau nýleg. Svo man ég t.d. ekkert frá því ég var lítil. Held alltaf að fólk sé bara að ljúga þegar það er að segja sögur af sjálfum sér frá því voru fimm ára eða eitthvað... eða að foreldrar þeirra eru búin að segja þeim svo oft frá sögunni að sá hinn sami býr til einhverja mynd í hausnum á sér og finnst því að hann hafi upplifað gjörninginn. Í gegnum tíðina hef ég líka munað hvað ótrúlegasta fólk heitir. Það þarf bara að segja mér nafn og benda. Þá er það skráð. Þetta getur verið mjög óþægilegt, hallærislegt og í raun hundleiðinlegt því öllu má nú ofgera. Þetta er e-ð að breytast. Þokukenndu tímabilin í lífi mínu eru t.d. frekar nýleg og ég virðist verða ómannglöggari með hverju árinu. Ætti ég að fagna því? Nei. Þetta er orðið svo slæmt að ég er farin að heilsa fræga fólkinu ef ég átta mig ekki á því strax að um selebretí er að ræða. Held bara að þetta séu einhverjir kunningar. Søs úr Krønikken (held ég) varð fyrir barðinu á smæli og nikki frá mér á Aros í þegar ég var að skoða sýninguna hans Ólafs Elíassonar. Vatt mér einnig upp að tveimur meðlimum Kashmir (held ég) á stofunni sem kennd er við öl um jólin eins og versta grúpppía (ég er samt allt annað en áhangandi kashmir). Þetta gerist þó nánast aðeins þegar ég er mikið utan við mig eða búin að fá mér nokkra drykki.
Jæja... þetta er orðið afar langt og vont en mig langar að enda á því að gleðjast yfir frammistöðu íslensku drottningarinnar í SK Århus. Fór á kappleik í handknattleik ásamt Kollu Valsstúlku og fyrrverandi nemanda mínum og Guðrúnu Gyðu Kollusystir. Var það mikið gaman enda hef ég ekki farið á kappleik í langan tíma. Sá hetjuna þrusa sjö sinnum í netið og vera kosin maður leiksins og alles... þrátt fyrir að hún hafi einungis fengið sirka 30 mín í sókninni. Júbbí fyrir Hröbbu!!!
Góðar stundir.

miðvikudagur, janúar 12, 2005

Listos geisladiskos..

Maður gerir allt til þess að þurfa ekki að lesa bók um Lévy prósessa og óendanlega deilanlegar dreifingar eftir Ken-Iti Sato svo ég held bara áfram að lufsast til að skrifa e-ð. Merkilegt hvað ég skrifa eiginlega alltaf í þessa bók á vinnutíma. Líklega þess vegna sem ég er svona ofvirk að skrifa þessa dagana. Kem nefnilega litlu í verk í vinnunni. En þegar næsta vika byrjar verð ég ný sem blátt ský og massa þessa líkindafræði í tætlur.

Hef heyrt að fólk er víst ekki alvöru nema það komi með e-a topp fimm lista eftir áramót. Þetta sér maður útum allar trissur og tussur. Minn topp fimm listi yfir uppáhalds geisladiskakaupin mín á árinu er:
1. Deerhoof – Milk Man
2. CocoRosie – La Maison de Mon Reve
3. Joanna Newsom – The Milk-Eyed Mender
4. Modest Mouse – Good News for People Who Love Bad News
5. Jens Lekman – When I Said I Wanted to Be Your Dog
Deerhoof kynntist ég á bestu tónleikum ársins í ágúst á Spanien 19C og þá var ekki aftur snúið. Mikið klikk og mikið gaman. CocoRosie kynntist ég í lok nóvember og varð mikið ástfanginn. Hefur þessi diskur verið í stanslausri spilun síðan ég svo keypti mér gripinn. Þær spiluðu víst hér í Århus C meðan ég var í Australia... snökkt. Joanna Newsom er ævintýraprinsessa. Hörpuleikurinn fær mig til að gráta gulltárum. Hún kom líka til Dene þegar ég var downunder... meira snökkt. Modest Mouse gaf mér einu af bestu poppplötunum mínum og Jens Lekman er bara sænskur, fyndin og skemmtilegur. Mjög góð lýsing hjá mér. Einmitt... Annars eru nokkrar skífur sem hljóma mjög vel og gætu vel drepið Modest Mouse og Jens Lekman á þessum lista... en ég hef bara ekki enn komist í að kaupa þær.
Annars er ég búin að vera hlusta á alla íslensku diskana sem ég fékk með mér frá Íslandi. Mugison er soldill snillingur og Hjálmar líka ansi skondnir. Svo finnst mér hann Þórir alveg hreint ágætur. Samt mjög fyndið að hann syngur nánast alveg eins og félagi minn hann Jacob Faurholt. Þeir nota allaveganna röddina alveg ótrúlega eins. Athyglisvert... Ekkert svo mjög ósvipuð tónlist líka. Finnst þó Þórir aðeins betri en bíð þó spennt eftir að platan hans Jacobs og Sweetie Pie Wilbur (Trine&Kasper) komi út... Þetta verður örugglega mjög fínt hjá þeim þegar allt kemur til alls enda hafa þau víst mikið verið að breyta og bæta undanfarna mánuði.
Er bara heima í dag að "vinna". Helvíti ljúft en ekki mjög arðbært... held ég fari út í storminn og kaupi mér alvöru kaffi. Ég á ekkert slíkt þessa dagana. Mig langar í kaffivél.

þriðjudagur, janúar 11, 2005

Helvítis hórustarfsemi...

Ekkert mikið nýtt héðan. Nema jú... enn og aftur hefur það komið í ljós að ég er í algjöru leikskóladoktorsnámi. Maður ræður litlu hvað maður gerir og er alltaf þeytipíka fyrir leiðbeinandann sinn. Í vikunni fékk ég póst frá manni sem þakkaði mér fyrir að vilja halda fyrirlestur á ráðstefnu í Mexíkó í mars 2006. Hmmm... Ég var næstum því búin að eyða þessu og hélt að þetta væri bara ruglpóstur. Spurði nú samt leiðbeinandann minn hvort hún kannaðist við þetta og þá hafði hún gleymt því að segja mér að ég ætti að fara þarna! Mér finnst að fólk geti ekki bara gleymt svona hlutum. Okei, það er nú alveg mjög langt þangað til og allt, en ég verð ekki einu sinni starfsmaður Árósarháskóla á þessum tíma. Á að skila ritgerðinni minni 1. febrúar 2006 og frá og með þeim degi er ég líklega atvinnulaus. Einkennilegur þessi leiðbeinandi. En þetta gæti orðið til þess að ég verð kannski í nokkra mánuði að vinna í skólanum eftir skil á ritgerðinni ljótu sem ég vona að komist í gegnum rassgatið á doktorsnefndinni og ég verði PhD. Ætli ég verði ekki að smyrja vel af vaselíni á hana áður en ég skila henni. Vaselín virkar vel á allt...

mánudagur, janúar 10, 2005

Veðurfréttir og annað spennandi

Allt vitlaust í Dene um helgina. Orkan og alles... Ég gerði nú bara grín af vinum mínum sem voru með svo miklar áhyggjur. Daninn er doldið áhyggjufullur svona í det hele. Það var ekki vinsælt og sé ég það núna að þetta var nú eilítið meira en maður hélt. Það er nú aðallega af því að Danir byggja ekki húsin sín almennilega held ég... og þó... greyin eru bara ekki vanir óveðri. Var með smá mat fyrir nokkrar vinkonur mínar og Solveig ætlaði t.d. varla að þora að fara út úr húsi en kom svo kannski af því að ég var búin að gera svo mikið grín af henni. Já, já.. veðurfréttir. Alltaf spennandi.
Annars var veðurkvöldið mikla mjög notalegt. Ég og Dorte vorum bara að dúlla okkur að malla mat og köku í eftirmiðdaginn og svo kom restin og við áttum góðar stundir með mat, víni og öli. Kartöflusúpan með öllu dótinu fékk mjög góða dóma sem og kakan... svo ég er ekki alveg glötuð í eldhúsinu þrátt fyrir pásu frá húsungfrústörfum undanfarna fjóra mánuði. Gott að fara af stað í eldhúsinu með einhverju auðveldu. Svo sváfu Dorte og Trine heima og við hegðuðum okkur eins og táningsstúlkur á handboltatúrneringu... mjög skemmtilegt. Tímarnir eru aldeilis breyttir. Við erum svo fullorðnar eitthvað m.v. á síðasta ári. Við Trine minntumst þess þegar við vöknuðum í annarlegu ástandi með einhverja ókunnuga karlmenn liggjandi í geisladiskahafi í íbúðinni minni fyrir ári síðan, með ókunnugt hjól fyrir utan hjá mér (bý á 2. hæð), kærastann hennar Trine hálfan til fóta og rauðvín uppum alla veggi. Uss.... Alveg Kreisí sem fyrrihluti síðasta árs var. Gott að þessi djamm- og drykkjutími sé yfirstaðinn. Maður er orðinn svo helvíti dannaður... kannski kominn tími til.
Já, og ég trúi því nú ekki að íslenski barinn sé orðinn ojojoj... fannst hann nú alveg ágætur þarna um daginn. Sérstaklega í restina. Kannski ertu bara að hugga mig? En eitt er víst að 101-landið er nú aldeilis betra en 8000-landið hér. Allaveganna í myrkrinu á barnum.

laugardagur, janúar 08, 2005

Söknuður

Ég setti mér ekki nein alvöru áramótaheit í þetta skiptið. Í stað þess setti ég mér fjórðungsheit með möguleika á endurskoðun í lok hvers fjórðungs. Fyrsta fjórðungsheitið er þrískipt – búa sjálf til sushi, fara meira í bíó (en ekki á vondar myndir... fór nefnilega í fjölskyldubíó á ógeðisstuðmannamyndina um jólin og ég er enn eftir mig) og kaupa mér örbylgjuofn á útsölu svo ég geti poppað. Ég var nefnilega að panta fleiri stöðvar í kabaltívíinu. Afleiðing af þessu fyrsta fjórðungsheiti er að ég mun vonandi nota fleiri tíma í rólegheitum og fyrir framan sjónvarpið með popp og meððí en á knæpunum.
Er strax komin þriðjung leiðarinnar. Keypti mér örbylgjuofn á útsölu í Føtex sem hljómar eins og traktor. Ég á líka vegavinnuvélavideo. Það þarf að botna græjurnar þegar maður videóast.
Er núna bara róleg heima á föstudagskveldi. Hefur ekki gerst í langan tíma hér í Baunalandi held ég. En mun vonandi gerast oft á þessu ári. Drullan er öll að fara, búin að laga til og borða yfir mig af poppi. Er svo að undirbúa smá mat fyrir morgundaginn. Ekkert fansí. Ætla að gera kartöflusúpu með spínati, pestó og tómatsalsa, salat og baka ólívubrauð. Svo verður boðið upp á Bounty köku (uppskrift í boði frú Hrafnhildar) í eftirmiðdaginn. Ég er semsagt að gerast húspiparfrú.
Ég er búin að vera heldur glöð undanfarna daga með seinaganginn í danska lífinu en nú er föstudagur og þá er ég allt í einu ekkert svo glöð með hann. Væri alveg til í að vera á barnum með Svönu litlu á Íslandi... hún er einmitt í þessu að spila popppunktinn góða á leið á barinn með góðu fólki... ég gæti líka verið með henni Eibbu minni eitthvað að stússast... en það verður víst að bíða betri tíma. Ohh... söknuðurinn. Kannski hefði ég átt að segja já við út-að-borða ferð í kvöld, það hefði dregið athygli mína frá þessum söknuði. En örbylgjuofninn heillaði meir. Lifi ljúfar stundir...

fimmtudagur, janúar 06, 2005

Drulla allt og allstaðar

Muhuhuhu... Heima hjá mér er bara skítur og loðkögglar. Náði ekki að laga til áður en ég fór til Íslands vegna anna svo það er vægast sagt jökklegt á Klostergade þessi dagana. Samt mjög notalegt. Mér líður svo vel í skít og drullu enda er ég kannski doldil drullukunta. Já, ljúfu Árósar láta mér líða afar vel. Ekki það að það hafi ekki verið ofsalega ljúft og skemmtilegt á Íslandi með fjölskyldu og vinum. Það var samt bara djöfulli erfitt. Ég er nú líka frekar skemmd í hausnum svo mér finnst allt erfitt... Það er ekkert sjálfgefið að gömul kelling eins og ég fari létt úr úr því að fá sér í aðra tánna svona oft á stuttum tíma.
Annars er ég búin að vera mjög afslöppuð síðan ég kom heim og hef gert mikið af danskri hygge. Mín danska hygge felst m.a. í því að drekka te og kaffi og spjalla við vini sína, þvo þvott, skúra gólf, hlusta á tónlist, versla í matinn... allt gert í miklum rólegheitum... eiginlega í slómó. Svo gerir maður auðvitað ekki neitt í vinnunni, nema taka sér meira en klukkutíma matarhlé og drekka kaffi með vinkonum sem eru svo ljúfar að koma í heimsókn í matematisk kantine... og jú svo skrifar maður bréf eins og þetta. Finnst þessi jól nú eiginlega hafa verið minni rólegheit en hversdagurinn í Dene. Það er auðvitað mér sjálfri að kenna af því ég er svo sjúk í að fara alltaf á barinn á Íslandi. Er það nú reyndar líka í Dene... en það dreifist á lengri tíma. Hér er maður víst í vinnu á virkum dögum eða þykist allaveganna vera það. Góðar stundir, lata&skítuga konan...

þriðjudagur, janúar 04, 2005

Oinpbret bérf til húfsrúannr í Dsusel...

Jæja og árið... held að ég sleppi því nú bara Eivor mín að koma með einhverja skýrslu frá hittingnum með handboltaskvísunum okkar. Ég gleymdi glósubókinni og móment sem mér þóttu athyglisverð frá þessu kvöldi finnst mér ekki hægt að reita í þessa bók... Svo var ég líka upptekin við drykkju og aðra ósiði alla síðustu viku svo ég hef engan tíma haft til að skrifa þér línur, sama hversu áhugaverður þær gætu hafa orðið. Sorrí. En þú ert nú á leið til kalda landsins og verður ábyggilega komin með meira djúsí handa mér en ég gat veitt á þessum þremur vikum á morgun eða jafnvel hinn. Mér finnst eins og ég sé að skrifa opinbert ber til hausfrau Eivor. Já, skýrslan heldur áfram og verður vonandi í síðasta skipti jafn þurr og exemlögð. Ég hélt jól í Hafnarfirði og fékk þar marga fallega pakka sem innihéldu Samkvæmisleiki, eldhúsáhöld, fallega skó og gasalega fjölbreyttan og fallegan bol úr Kron, nælu, vettlinga, handklæði, kanínuullarsokka og sitthvað fleira. Hélt einnig jól á Seltjarnarnesi og smávegis á Freyjugötu þar sem tekin var drukkin Popppuktur. Það spil er alveg hreint mjög skemmtilegt. Svo var restin svona sirka barferðir og/eða spil á kveldin, svefn á daginn. Ekki alveg eins og það átti að vera. En svona er þetta nú stundum.
Er annars bara glöð að vera komin heim til mín, þrátt fyrir mikla andvökunótt. Var þó mætt hress og kát í vinnuna í morgun – verð að snúa sólarhringnum við asap. Heima biðu mín falleg póstkort, reikningar, óhreint tau en enginn matur. Frysta skvekkelsi ársins var að paprikuostur í stað mexíkóosts hafði laumað sér í pokann minn. Mér finnst gubbubragð af paprikuosti. Er það ósköp sárt. Hinsvegar hefur árið verið skínandi gleði hingað til svo ekki er við ostinn að sakast. Hann breytir líklega ekki miklu varðandi líf mitt á þessi ári sem ég vona að verði einstakt og gott með nýja Kristjönu í fararbroddi.